Áfram
Ertu í sambandi af gerð 1 eð 2?

Ertu í sambandi af gerð 1 eð 2?

Vitanlega gátu menn ekki komið sér saman um eina gerð af tengjum til að hlaða rafmagnsbíla. Samt eru það einkum tvær sem fyrirfinnast á Íslandi í dag, gerð 1 og gerð 2.

Gerð 2 er algengasta tengið hér á landi. Frá og með 2025 verður þessi gerð tengis krafa í Evrópu. Þetta vita bílaframleiðendur mætavel og hafa um hríð afgreitt bíla sína útbúna samkvæmt því. Tengi af gerð 2 er sjö pinna tengi. Fimm þeirra hafa með hleðsluna að gera, en tveir hafa það hlutverk að annast samskipti milli bíls og hleðslustöðvar. Þetta tengi er einungis notað fyrir AC hleðslu (riðstraums) en undir það flokkast nánast allar heimahleðslustöðvar, sem og flestar almennings hleðslustöðvar við fyrirtæki, verslunarmiðstöðvar, stofnanir og fleiri staði. Tengið getur borið hleðslu allt að 43kW á klukkustund yfir þrjá fasa. Fáar riðstraums hleðslustöðvar eru þó í boði sem hlaða meira en 22,2kW.

Búast má við að bíll sem fluttur er inn frá Ameríku sé með tengi af gerð 1. Hið sama á við nokkrar gerðir bíla sem koma frá evrópu, þar með talið MMC Outlander. Í stórum dráttum liggur munurinn á milli gerðar 1 og 2 í að gerð 1 er, öfugt við gerð 2, einfasa. Rafmagn í USA er allt einfasa og því eru bílar og hleðslubúnaður að sjálfsögðu hönnuð miðað við það. Tengi af gerð 1 er fimm pinna tengi. Það hleður að hámarki 7,4kW á klukkustund. Til að hlaða bíl með tengi af gerð 1 í hleðslustöðvum sem finnast hér á landi er nauðsynlegt að útvega snúru með tengi af gerð 2 í hleðslustöðina en gerð 1 í bílinn.

Hvorki gerð 1 né gerð 2 flytja jafnstraum (DC). Jafnstraumshleðsla er mun hraðvirkari en riðstraumshleðsla (AC). Þegar talað er um hraðhleðslu er oftast átt við DC hleðslu.

Merkilegt nokk tókst löndum heimsins meira eða minna að koma sér saman um tengi til nota í hraðhleðslu. Um er að ræða tvo pinna sem hlaðið geta allt að 350kW á klukkustund. Þessi tengi eru kölluð CCS (Combined Charging Standard) og eru eins á nær öllum bílum. Á myndunum hér fyrir neðan sjást hefðbunndin hraðhleðslutengi, annars vegar gerð 2 og CCS, en hins vegar gerð 1 og CCS. 

Fyrri grein En það er svo þægilegt að renna bara á bensínstöð