Áfram
En það er svo þægilegt að renna bara á bensínstöð

En það er svo þægilegt að renna bara á bensínstöð

Höfundur þessarar greinar getur staðfest að það er merkilega stórt skref, svona sálarlega séð, að skipta yfir í rafmagnsbíl. Flestar snúast flækjurnar í raun um að maður veit hvað maður hefur, en ekki hvað maður fær. Ein slík snýr að hleðslu. Að hlaða bíl tekur lengri tíma en að dæla á hann eldsneyti. Bensínstöðvar eru víða en hleðslustöðvanet landsins er enn í uppbyggingu.

Tíminn sem tekur að hlaða bíl er vissulega lengri en sá tími sem tekur að fylla tankinn af bensíni eða dísel. Reyndin er hins vegar sú að rafbílaeigendur hlaða bíla sína sárasjaldan annarsstaðar en heima hjá sér. Að stinga bíl í samband tekur fáeinar sekúndur á meðan hver ferð á bensínstöð kostar aksturinn þangað, virkjun dælunnar, bið eftir því að tankurinn fyllist, frágang og aksturinn frá stöðinni á næstu stoppistöð í dagsskipulaginu. Hver ferð er því mæld í tugum mínútna og nokkrir klukkutímar á hraðhleðslustöð yfir árið breyta því litlu um, að mikill tímasparnaður er af því að vera á rafmagnsbíl. 

Vissulega eru bensínstöðvar víða og hægt að ganga að því vísu að stutt er á milli stöðva. Tvennt þarf þó að hafa í huga þegar þetta er skoðað. Eins og áður sagði hlaða rafbílaeigendur aðallega heima hjá sér og hafa takamarkaða þörf fyrir hraðhleðslustöðvar dags daglega. Einnig er það svo að fæstir keyra á rafmagnsbílum á mili landshluta daglega. Hjá flestum eru þetta örfá skipti á ári og þá hvort sem er stoppað reglulega til að viðra sig og næra.

Fyrri grein En Teitur í 204 vill ekki setja upp hleðslustöð
Næsta grein Ertu í sambandi af gerð 1 eð 2?