En hvers vegna getur Gummi rafvirki í 302 ekki gert þetta?
Nýlegar breytingar á lögum gera það að verkum að fjölbýlishúsum er nánast skylt að koma upp aðstöðu til hleðslu rafbíla. Eins og mál eru að þróast ættu flestir að vera sammála um að góð aðstaða til rafbílahleðslu styður við verð íbúðar og er þannig mikilvægt endurbótaverkefni. En, eins og gengur og gerist er ekki hægt að ganga út frá því vísu að heilt húsfélag gangi í takt þegar kemur að fjárútlátum. Uppbygging lagnakerfis í séreignarstæðum er stærri, dýrari og flóknari framkvæmd en uppsetning hleðslustöðva í sameiginleg stæði. Áðurnefndar lagabreytingar taka tillit til þessa og þó lögin gangi langt eru í þeim ákvæði sem trúlega er ætlað að tryggja að byggt verði upp á skynsamlegan máta. Vilji rafbílaeigandi beita sér fyrir því að koma upp hleðsluaðstöðu í sínu séeignarstæði er fyrsta skrefið að láta húsfélagið vita með formlegum hætti. Þegar það hefur verið gert er stjórn húsfélagsins skylt að láta fara fram úttekt „eins fljótt og verða má“. Í þessari úttekt skal leggja mat á núverandi þörf og áætla þörf til framtíðar. Metið skal hvernig byggja megi upp á sem hagkvæmastann hátt. Kostnaðaráætlun skal vera hluti úttektarinnar. Með þessum kröfum má segja að hagsmunir allra aðila séu þokkalega tryggðir. Rafbílaeigendur færast einu skrefi nær hleðsluaðstöðu og þeir sem ekki vilja aðstöðuna eiga skýran rétt á að ekki verði meiru kostað til en þarf.
Stjórn húsfélags ætti að velta orðanna hljóðan vel fyrir sér því vafasamt er að halda því fram að það að kalla eftir tilboðum og ráðast svo í framkvæmdir uppfylli þær skyldur sem lögin kveða á um. Einnig er það vafasamt í sjálfu sér að þessi úttekt sé framkvæmd af íbúa í húsinu eða aðila tengdum honum þar sem sá aðili hefur beina hagsmuni af niðurstöðunni. Ábyrgð stjórnarmanna og almenn sátt um framkvæmdina er best uppfyllt með vandari úttekt aðila sem ekki tengist húsfélaginu.